Keppendur Þórshamars náðu frábærum árangri á Smáþjóðamótinu í Laugardalshöllinni um helgina og unnu samtals tvö gull, eitt silfur og átta brons. Allir keppendurnir tólf voru félaginu til mikils sóma og koma reynslunni ríkari til baka. Ísland átti sitt besta Smáþjóðamót til þessa, en als vann landsliðið 10 gull, 13 silfur og 34 brons.
Victor Anh Duc Le varð fyrsti Smáþjóðameistari Þórshamars á laugardaginn þegar hann vann gullið í kumite tólf ára drengja í +50 kg flokki. Victor sýndi mikla yfirburði í flokknum og vann keppanda frá Lúxemborg í úrslitum, 6-0. Fyrr um daginn hafði Victor nælt sér í brons í kata. Á sunndeginum bætti hann svo þriðju verðlaununum í safnið, bronsi í liðakeppni í kumite. Frábær frammistaða hjá þessum unga karatemanni, en þetta er aðeins í annað sinn sem Victor keppir á alþjóðlegu móti.
Á sunnudag varð Aron Bjarkason Smáþjóðameistari í æsispennandi liðakeppni karla í kumite. Liðsfélagar Arons voru þeir Ólafur Engilbert Árnason, Máni Karl Guðmundsson og Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson. Í undanúrslitum mættu Íslendingarnir liði Mónakó. Það var Aron sem tryggði Ísland í úrslit með yfirburðasigri á andstæðingi sínum, 8-0. Eftir æsispennandi úrslitarimmu gegn Kýpverjum stóð Ísland uppi sem Smáþjóðameistari. Þá hafði Aron unnið brons í -67 kg flokki karla í kumite fyrr um daginn.
Þá vann Freyja Stígsdóttir svo silfur í hópkata kvenna ásamt þeim Svönu Kötlu Þorsteinsdóttur og Móeyju Maríu Sigþórsdóttur McClure. Þær stöllur unnu undanúrslitaviðureign sína örugglega en töpuðu naumlega í úrslitum. Í einstaklingskata vann Freyja svo bronsið í juniorflokki af miklu öryggi og var hársbreidd frá því að komast í úrslit, aðeins 0,06 stigum á eftir Louisu Borch frá Lúxemborg. Freyja náði einnig mjög góðum árangri í kata kvenna, 5. sæti af 20 keppendum.
Hér má sjá árangur allra keppenda Þórshamars á mótinu:
Agnar Már Másson, brons í kumite junior -61 kg, brons í liðakeppni í kumite og 9. sæti í kata juniora
Aron Bjarkason, gull í liðakeppni og brons í kumite -67 kg karla
Ágúst Valfells, brons í kumite cadet -52 kg og brons í liðakeppni
Björk Rósinkrans Bing, 7. sæti í kata juniora
Freyja Rósinkrans Bing, 11. sæti í kata juniora
Freyja Stígsdóttir, silfur í hópkata seniora, brons í kata juniora og 5. sæti í kata seniora
Hannes Hermann Mahong Magnússon, 5. sæti í liðakeppni kadetta í kumite
Kristjana Lind Ólafsdóttir, 5. sæti í kumite +59 kg juniora
Marteinn Edward Lucas, 5. sæti í liðakeppni U14 ára í kumite
Stefán Franz Guðnason, 5. sæti í kata kadetta
Valur Kristinn Starkaðarson, 5. sæti í kumite -50 kg U14 ára og 5. sæti í liðakeppni U14 ára í kumite
Victor Anh Duc Le, gull í kumite +50 kg U13 ára, brons í kata U13 ára og brons í liðakeppni U14 ára í kumite
Comments